Umsögn SDÍ varðandi uppbyggingu og umgjörð lagareldis - Stefna til ársins 2040
3. nóv. 2023
Samtök um dýravelferð á Íslandi skora á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum sem allra fyrst. Við köllum eftir trúverðugri áætlun sem miðar að því að banna alfarið laxeldi í sjókvíum hér við land. Samtökin lýsa yfir þungum áhyggjum af því dýraníði sem fellst í laxeldi sem flokkast sem þauleldi og sérstaklega eldi í opnum sjókvíum.
Samtökin gagnrýna harðlega hve lítið er fjallað um dýravelferð fyrir utan þá sjúkdóma sem fjallað er um í kafla 2.2. Þar er getið að “Heilbrigði eldisfiska hefur almennt verið gott í íslensku sjókvíaeldi og alvarleg tilvik hafa hingað til verið fátíð” Þessu erum við ósammála og bendum á að ítrekuð hefur þurft að slátra lax og farga honum vegna blóðþorra eða nýta mjög svo eitruð efni til að vinna á laxarlús sem hefur neikvæð áhrif á önnur krabbadýr.
Í skýrslu sem Fish Welfare Initiative gaf út 2020 er farið ítarlega yfir þau dýravelferðaatriði sem snerta þauleldi fiska. Við skorum á Matvælaráðuneytið að kynna sér skýrslu Fish Welfare Initiative og að tryggja að velferð fiska sé áberandi í áætlun í fiskeldi.
Almennt viljum við benda á:
Hingað hafa leitað stór fyrirtæki frá Noregi. Sjókvíaeldi er ekki bannað í Noregi, en þar er hins vegar verið að setja iðnaðinum sífellt strangari kröfur. Skattar eru hækkaðir, regluverk hert og vöxtur hindraður. Iðnaðurinn hefur þar, rétt eins og hér vaxið á ógnarhraða og því fylgja gríðarleg umhverfisslys, sjúkdómar og aukin dauðsföll eldisdýra. Norsku fyrirtækin leituðu fyrst og fremst til Íslands vegna þess að hér var nánast ekkert regluverk, og hægt að fá leyfin nánast ókeypis. Leyfi sem þeir myndu þurfa að borga háar upphæðir fyrir í Noregi.
Við mótmælum harðlega að viðkvæm náttúra og lífríki Íslands skuli vera á útsölu fyrir lítið með óafturkræfum áhrifum á náttúru og lífríki Íslands.
Nú þegar hafa stakar þjóðir og landssvæði /fylki bannað opið sjókvíahald, m.a. Danmörk, Argentína, Vesturströnd Kanada, Washington og Kalifornía fylkin.
Þó að Samtök um dýravelferð á Íslandi eru á móti öllu þauleldi, þá verður að benda á það að eldi á landi sé þó betri kostur en eldi í opnum sjókvíum. Þá fer eldið fram í stjórnuðum aðstæðum. Þar af leiðandi eru engin snýkjudýr að éta laxana beinlínis lifandi, þar ber helst að nefna laxalús. Einnig er hitastigi haldið stöðugu og því fær fiskurinn ekki vetrarsár.
Allmennt skorum við á Matvælaráðuneytið að setja skýrar og strangar kröfur um þéttleiki fiskanna sem sett er ofan í hverja kví.
Nokkrar aðrar staðreyndir varðandi dýravelferð:
• í sjókvíaeldi drepast um 20-25% eldisdýranna í framleiðsluferlinu, vegna þeirra aðstæðna sem þau eru alin í.
• Laxalús er orðin risastórt vandamál í sjókvíaeldi á Íslandi. Í haust þurfti að slátra milljón eldislöxum í Tálknafirði vegna þess að þeir voru svo illa étnir af lús.
• Á undanförnum árum hafa nokkrar milljónir eldislaxa drepist í kvíum á Íslandi vegna vetrarsára, sýkinga, sjúkdóma og laxalús.
• Til þess að vinna gegn lúsinni notast sjókvíaeldið við skordýraeitur, en það drepur líka önnur skeldýr í sjónum eins og t.d. rækjur.
• Önnur leið til að vinna gegn lúsinni er að setja hrognkelsi ofan í kvíarnar. Þessir litlu fiskar synda um og éta lúsina. Því miður er það þeirra eini tilgangur og þeir drepast allir að lokum. 1 milljón hrognkelsi eru alin á Íslandi á ári, með þann eina tilgang að éta lús og drepast. Þau eru ekki nýtt frekar. Má benda á að í Noregi drepast um 150.000 hrognkelsi á dag í sjókvíum. Þau eru heldur ekki nýtt frekar. Það er okkur óskiljanlegt hvernig þetta gæti kallast sjálfbært á nokkurn hátt og stangast þar með á grundvallamarkmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér.
Virðingarfyllst, Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi