Umsögn SDÍ um frumvarp til laga - bann við blóðmerahaldi
23. nóv. 2023
Samtök um dýravelferð krefjast þess að íslensk stjórnvöld banni blóðmerahald hið fyrsta
Umsögnin styður frumvarpið
Blóðmagn
Teknir er samtals 40 lítrar af blóði frá fylfullum og oftast mjólkandi merum yfir 8 vikna tímabil, upp í 5 lítra hvert skipti. Miðað við algenga líkamsþyngd íslenskra merar er tekið úr þeim milli 15-20% af blóðmagni þeirra við hverja blóðtöku. Það er langt umfram það sem alþjóðlegar leiðbeinigar um blóðtökur mæla með. Það gefur auga leið að þessu fylgir gríðalegt líkamlegt álag. Í vísindagrein Vilanova og félaga (2021) eru leiðbeiningar um það hámarks blóðrúmmál sem taka má úr hestum vegna annars yfirvofandi hættu á blóðþurrðarlosti. Hámarks ráðlögð blóðtaka er 7,5% af heildarblóðrúmmáli í endurteknum blóðtökum og 15% við staka blóðtöku. Alheimssamtök dýralækna hafa gefið frá sér yfirlýsingu og taka undir þessi öryggismörk. Í þau 40 ár sem blóðtökur úr fylfullum merum hafa verið stundaðar á Íslandi hafa hvorki Matvælastofnun(MAST) né Ísteka lagt fram marktækar rannsóknir um áhrif blóðtökunnar á heilsu hryssanna. Engin gögn styðja það óheyrilega magn blóðs sem tekið er. Einu mælingar sem Ísteka og MAST hafa birt eru meðaltöl yfir hemoglóbíngildi (blóðrauðagildi) úr tæplega 2% úrtaki hryssanna á árunum 2011-2021. Þegar rýnt er í niðurstöður er ískyggilegt að sjá hversu margar hryssur liggja hættulega lágt í hemóglóbíni:
2 hryssur fari undir 6 g/dl
22 hryssur liggi á bilinu 6-7 g/dl
33 hryssur liggi á bilinu 7-8 g/dl
475 hryssur liggi einhvern tíma á bilinu 8-9 g/dl
Ætla má að hryssur með svo lág hemóglóbín gildi þjáist verulega af völdum blóðleysis. Eðlileg gildi hrossa liggja milli 11 og 17 g/dl samkvæmt dýralæknisfræðum og ættu aldrei að fara undir 10 g/dl hjá fylfullum hryssum. Við streitu losar milta hesta mikið af rauðum blóðkornum. Ísteka framkvæmir hemóglóbín mælingar við blóðtöku. Streitan við blóðtöku getur haft áhrif á mælingar og niðurstöður mögulega falskt hækkaðar. Mikilvægt að halda því til haga að hryssurnar eru fylfullar. Þær ættu við eðlilegar kringumstæður að vera að auka blóðrúmmál sitt. Þær eru einnig mjólkandi og sú framleiðsla er vökvakræf. Þær eru því enn viðkvæmari fyrir blóðtökum en hestar sem eru ekki í þessu líkamlega ástandi. PMSG Tilgangur iðnaðarins er að framleiða hormónið PMSG sem notað er í dýraeldi eingöngu til að stilla af gangmál húsdýra til að auka arðsemi í þauleldi. Afurðin sjálf gengur gegn dýravelferð. Notkun þess er sérstaklega vinsælt í svínaeldi. PMSG veldur því að gylltan eignast fleiri grísi hverju sinni og það styttir tímann á milli gota. Því er oft haldið fram að PMSG sé notað við frjósemisvandamálum húsdýra en oftar en ekki eru þau vandamál upp komin vegna þeirra hryllilegu aðstæðna sem maðurinn setur þau í. Þau fá ekki að lifa í samræmi við sitt eðli, eru haldin mjög þröngt og þjást. PMSG er ekki nauðsynlegra en svo að íslenskir svínabændur nota það ekki, svissneskir svínabændur nota það ekki, danska dýralæknafélagið hefur ákveðið að ráða frá notkun PMSG. Þýska dýralæknaeftirlitsstofnuin hefur líka ráðlagt svínabændum að sniðganga PMSG vegna dýravelferðarsjónarmiða. Meðferð fylfullra hryssa við blóðtökuBlóðtökuhryssur eru upp til hópa ekkert eða lítið tamdar hryssur. Við blóðtöku eru þær reknar inn í þrönga tökubása, höfuð þeirra bundið upp og bak strappað fast niður. Þetta er verulega óhugnanleg staða fyrir hesta sem eru flóttadýr í eðli sínu. Aðferð þessi við blóðtöku veldur streitu hjá hryssunum og er með öllu óásættanleg m.t.t líðan og velferð dýranna. Mistúlkun laga hjá íslenskri stjórnsýslu Frá upphafi baráttu okkar gegn blóðmerahaldi höfum við haldið því fram að reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni eigi að gilda yfir starfsemina. Lyf er framleitt úr lifandi dýrum, afurðin er sótt með læknisverki eða inngripi í æðakerfi lifandi dýra sem krefst deyfingar. Á árunum 2002 – 2020 veitti Matvælastofnun Ísteka leyfi á grundvelli þágildandi reglugerðar um dýratilraunir, leyfin voru veitt til fjögurra ára í senn. Síðasta leyfi sem MAST gefur veitir Ísteka er 2016 sem gilti til 2020. Árið 2017 er ný reglugerð innleidd 460 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Árið 2020 hittust forsvarsmenn Ísteka og fulltrúar MAST, þar sem tekin var ákvörðun að starfsemin ætti ekki að heyra undir reglugerð 460. Þessi reglugerð er í samræmi við kröfur nútíma samfélags um velferð dýra, tilgangur með henni er að takmarka notkun lifandi dýra í þessu skyni og mun strangari skilyrði sett fyrir heimild til verkefna. Markmið verkefnisins verður að vera svo mikilvægt að nauðsynlegt þyki að nota dýr. Þar er skýrt tekið fram að þegar hægt er að komast hjá því að nota lifandi dýr, á alls ekki að nota þau. Þegar er ljóst að blóðtaka úr fylfullum hryssum er ekki í samræmi við reglugerðina þar sem til er fjöldi af staðkvæmdarvörum fyrir PMSG hormónið. Það er einnig skýrt að fjárhagslegur ávinningur eða aukin arðsemi megi ekki og eigi ekki að teljast þáttur til að heimila notkun lifandi dýra, með því væri eiginlegt markmið reglnanna ógilt. Í mars 2022 kvörtum við ásamt 16 öðrum dýraverndunarfélögum til ESA vegna blóðmerahalds. Niðurstaða ESA lá svo fyrir í vor: íslensk stjórnvöld voru brotleg og höfðu ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart tilskipun um vernd dýra. Reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni skal gilda yfir starfsemina. Starfsemin snúist um að taka blóð úr lifandi dýrum, að blóðtakan valdi dýrunum þjáningum, að um framleiðslu lyfja sé að ræða. Rök ESA eru tíunduð fyrir niðurstöðunni og við lesturinn er sláandi hve málsmeðferð ráðuneytisins og MAST er vond. Við sem höfum lagt fram álit eftir álit, samhljóma áliti ESA, með næstum sömu rökum, höfum furðað okkur á útúrsnúningum MAST og ráðuneytis, laga álitum sem virðast miða að því að koma hryssunum undan þeirri vernd sem kveðið er á um í lögum. Frá 1. Nóvember hefur þessi reglugerð gilt yfir starfsemina. Ísteka og hver og einn sem heldur hryssur til blóðtöku þarf nú að sækja um leyfi hjá MAST. Til að uppfylla kröfur um ávinning skv. reglugerðinni þarf hann að vera bætt heilsa fólks, bætt heilsa dýra eða félagslegur ávinningur svo sem sparnaður í heilbrigðiskerfi vegna betri aðbúnaðar, heilsu eða aðferða sbr. preamble 12., 5. gr. og 38. gr. Ljóst er að blóðmerahald uppfyllir ekki meginskilyrði reglugerðar 460/2017 og tilskipunar 2010/63 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. SDÍ krefjast þess að íslensk stjórnvöld fari að lögum og banni blóðtöku úr fylfullum hryssum hið fyrsta. Virðingarfyllst, Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi