Umsögn Samtaka um dýravelferð við frumvarp til laga um hvalveiðibann
23. okt. 2023
Umsögnin styður frumvarpið
Lög um velferð dýra eru lágmarks reglur í samfélagi manna um hegðun okkar gagnvart öðrum dýrategundum. Þau eru eina björgin sem dýr eiga sér í réttarríki manna. Lögin skapa dýrum réttindi í ljósi þess að þau eru skyni gæddar verur. Réttindi sem fólki ber að virða. Lögin greina frá því hvernig skal staðið að aflífun dýra. Þau innihalda ákvæði sem hvalveiðar geta ekki uppfyllt. Þrátt fyrir kjöraðstæður við veiðar er ekki hægt að tryggja skjóta, örugga og sársaukalausa aflífun. Þetta hefur nú verið staðfest með eftirliti sem haft var með veiðunum.
Fagráð um velferð dýra gaf sitt faglega álit á veiðunum. Niðurstaða fagráðs var afdráttarlaus: Veiðiaðferð sem notuð er við hvalveiðar samræmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Dýralæknafélag Íslands gaf út yfirlýsingu í vor í kjölfar útgáfu skýrslu Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar á langreyðum við Ísland 2022. Fagfélagið kallaði eftir því að veiðarnar yrðu stöðvaðar strax í ljósi þess að aflífunaraðferðir brutu gegn meginmarkmiðum laga um velferð dýra.
Samtök um dýravelferð styðja að frumvarp þetta verði að lögum. Frumvarpið er vel unnið og rökstutt. Hryllileg meðferð hvala við veiðar eins og lýst er í frumvarpinu er aldrei réttlætanleg. Íslenskum stjórnvöldum ber að stöðva slíkar pyntingar á skyni gæddum verum. Velferð dýra er Íslendingum mikilvæg. Meðferð á málum sem því koma við verða að vera í samræmi við siðferðisvitund samfélags þess tíma. Að banna hvalveiðar væri veigamikið og tímabært framfaraskref fyrir íslenskt samfélag, náttúru og dýralíf.
Þar af leiðandi fer stjórn SDÍ þess á leit við stjórnvöld á Íslandi að þau banni hvalveiðar hið fyrsta.
Virðingarfyllst,
Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi