Stjórnmálaflokkar og dýravelferð
31. okt. 2024
Spurningalisti þessi var sendur á alla flokka til að kanna viðhorf stjórnmálaflokka til ákveðinna mála er varða velferð dýra á Íslandi. Upplýsingar þessar eru ætlaðar til að aðstoða kjósendur að gera upp hug sinn fyrir komandi Alþingiskosningar. Við skorum á frambjóðendur allra flokka að mæta til kosninga með stefnu fyrir bætta dýravelferð á Íslandi. Við biðjum um að spurningum þessum verði svarað eigi síðar en 10. nóvember næstkomandi.
Hvalveiðar:
Styður flokkurinn hvalveiðar?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að hvalveiðar verði bannaðar?
Getur flokkurinn hugsað sér að leggja fram frumvarp um bann við hvalveiðum?
Er flokkurinn meðvitaður um áskorun DÍ (Dýralæknafélag Íslands) frá 12.5.2023?
Er flokkurinn meðvitaður um þær aðferðir sem notaðar eru við veiðar á hvölum sem valda þeim mikilli og oft langdreginni þjáningu? Hver er afstaða ykkar til þess?
Blóðmerahald
Styður flokkurinn blóðmerahald?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að blóðmerahald verði bannað?
Getur flokkurinn hugsað sér að leggja fram frumvarp um bann við blóðmerahaldi?
Er flokkurinn meðvitaður um að við blóðtöku á hryssum á vegum Ísteka hérlendis eru fjarlægðir fimm lítrar af blóði vikulega yfir tveggja mánaða tímabil? Þetta er gert allt að átta sinnum og heildarblóðtaka því samtals 40 lítrar yfir tímabilið. Um 15-20% af heildarmagni blóðs er fjarlægt í hverri blóðtöku.
Ísland brýtur þar með alþjóðlegar leiðbeiningar sem til eru varðandi blóðtökur á hestum. Niðurstöður rannsóknar sem unnin var af Keldum um áhrif blóðtöku á hryssurnar eru grafalvarlegar. Þær sýna að 20,6% af íslenskum hryssum sem sæta blóðtöku þjást skv. flokkun rannsakenda af mildu blóðleysi á blóðtökutímabilinu, um 8,6% þjást af greinilegu blóðleysi, og 2,1% af alvarlegu blóðleysi. Samtals 31,3%. Því má ætla að um 1500 blóðtökuhryssur þjáist ár hvert af blóðleysi á blóðtökutímabilinu með tilheyrandi vanlíðan og veikindum ef notuð eru þau blóðleysismörk sem rannsakendur ákveða að nota. Þegar viðmiðunarmörk íslenskra stóðhryssa eru notuð má sjá að nánast allar hryssurnar fara undir eðlileg gildi og þjást af blóðleysi.
Loðdýraeldi Tilvera minka í loðdýraeldi á Íslandi er ein sú dapurlegasta sem hugsast getur. Frá fæðingu til dauðadags dvelur minkurinn í litlu og þröngu vírnetsbúri sem er 70 cm að lengd og 30 cm að breidd. Eina afþreyingin sem er í boði er að ráfa í tilgangslausa hringi á þessu takmarkaða svæði. Fætur þeirra fá aldrei að hvíla á öðru undirlagi en mjóum vírunum. Minkum er það eðlislægt að synda í vatni. Rannsókn sýnir að þegar þeir hafa ekki aðgang að vatni til að busla í veldur það álíka streitu og þegar þeim er að neitað um fæðu. Dæmigerð hegðun dýra sem lokuð eru í búri er endurtekin sjálfskaðahegðun, t.d að bíta eigin húð eða naga í rimla búrsins. Allt einkenni sturlunar sem orsakast af endalausum leiða og ömurð.
Styður flokkurinn loðdýraeldi?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að loðdýraeldi verði bannað?
Getur flokkurinn hugsað sér að leggja fram frumvarp um bann við loðdýraeldi?
Er flokkurinn meðvitaður um að yrðlingarnir eru aflífaðir með gasi? Aflífunin fer þannig fram að þeim er komið í loftþéttan kassa og gasi er hleypt á. Það tekur allt að 60 sekúndur uns yrðlingarnir missa meðvitund, og drepast eftir fimm mínútur þegar kolmonoxíð mettunin hefur eytt súrefninu úr hjarta og heila. Þessar fyrstu 60 sekúndur eru afa kvalafullar fyrir yrðlingana, gasið veldur sviða og hægri köfnun.
Er flokkurinn meðvitaður um að mörg lönd hafa sett bann við loðdýraeldi vegna siðferðilegra ástæðna og velferðar dýra. Hér er listi yfir lönd sem hafa bannað loðdýraeldi að fullu eða að hluta. Sjá að neðan:
Evrópa
Bretland (2000) - Fyrsta landið til að banna loðdýraeldi.
Austurríki (2004) - Algjört bann.
Króatía (2018) - Algjört bann.
Tékkland (2019) - Algjört bann.
Slóvenía (2013) - Algjört bann.
Þýskaland (2019) - Skilyrði sett á sem urðu til þess að iðnaðurinn hætti.
Belgía (2023) - Algjört bann.
Noregur (2025) - Banni komið á með aðlögunartímabili. Algjört bann um 2025.
Holland (2021) - Algjört bann síðan 2021 vegna COVID-19 faraldursins.
Lúxemborg (2018) - Algjört bann.
Slóvakía (2021) - Algjört bann.
Írland (2022) - Algjört bann.
Eistland (2026) - Banni komið á með aðlögunartímabili. Algjört bann um 2026.
Frakkland (2023) - Algjört bann.
Ítalía (2022) - Algjört bann.
Bosnía og Herzegóvína (2028) Banni komið á með aðlögunartímabili. Algjört bann um 2028
Rúmenía - (2027) Banni komið á með aðlögunartímabili. Algjört bann um 2027.
Lettland (2028) Banni komið á með aðlögunartímabili. Algjört bann um 2028.
Búlgaría hefur sett bann við loðdýraeldi sem þrætt er fyrir dómstólum.
Í Sviss hætti iðnaðurinn í kjölfar þess að honum hafa verið settar þröngar skorður vegna dýravelferðarsjónarmiða. Sum lönd, eins og Pólland og Litháen, hafa hafið umræður og áætlanir um að banna loðdýraeldi.
Utan Evrópu
Japan - Hefur bannað ný minkabú, vegna strangra náttúruverndarlaga, sem hafa að lokum leitt til endaloka iðnaðarins.
Nýja Sjáland - Engin formleg bönn, en loðdýrabúskapur er bannaður vegna strangra dýravelferðarlaga.
Mörg önnur lönd hafa strangari reglur um loðdýrabúskap, sem leiðir til samdráttar í iðnaðinum.
Sjókvíaeldi
Fiskar þjást gjarnan af vetrarsárum, eru sýktir af laxalús með tilheyrandi sársauka og drepast í stórum stíl.
Styður flokkurinn sjókvíaeldi?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að sjókvíaeldi verði bannað?
Getur flokkurinn hugsað sér að leggja fram frumvarp um bann við sjókvíaeldi?
Er flokkurinn meðvitaður um þau áhrif sem sjókvíaeldi hefur á lífríkið í hafinu, villtan lax og velferð fiskanna?
Þauleldi dýra (svín, kjúklingar, hænsn, loðdýr) í þauleldi : eru oft haldin í afar þröngum aðstæðum, með lítið pláss til að hreyfa sig. Þetta leiðir til líkamlegs og andlegs álags fyrir dýrin. Dýr í þauleldi eru venjulega ófær um að stunda náttúrulega hegðun, svo sem að flakka, leita að fæðu, byggja hreiður eða félagsvísun. Þetta getur leitt til vonleysis, leiða og sturlunar. Mörg dýr í þauleldi þurfa oft að gangast undir sársaukafullar aðgerðir án deyfingar, eins og halaklippingar grísa og goggstýfingar hænsna. Þessar aðferðir eru framkvæmdar til að koma í veg fyrir hegðun sem stafar af álagi vegna lélegs aðbúnaðar og lítil sem engin tækifæri til að upplifa sitt náttúrulega eðli. Dýr úr þauleldi (og reyndar önnur dýr úr íslenskum landbúnaði) eru oft flutt langar vegalengdir í þröngum aðstæðum án nægilegs matar, vatns eða hvíldar. Þetta getur valdið alvarlegu álagi og þjáningu.
Styður flokkurinn þauleldi dýra?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að þauleldi dýra verði bannað eða takmarkað?
Getur flokkurinn hugsað sér að leggja fram frumvarp um bann eða takmörkun við þauleldi dýra?
Er flokkurinn meðvitaður um þau áhrif sem þauleldi dýra hefur á heilsu samfélags líkt og ofnotkun sýklalyfja, áhrif á umhverfið, loftslag og velferð dýra?
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir betri meðferð dýra í íslenskum landbúnaði?
Er flokkurinn meðvitaður um að meðferð svína er ekki samkvæmt gildandi reglugerð? Halar grísa eru klipptir þvert á reglugerð um velferð svína. Bein eru klippt af dýrunum án deyfingar. Ætlar flokkurinn að beita sér gegn því?
Rúmlega 90% svína á Íslandi fara í gegnum gasklefa við slátrun. Úttekt Matvælaöryggisstofnunar Evrópu leiddi í ljós þá niðurstöðu að aðferðin veldur ótta, streitu og sársauka og að hana skuli fasa út. Mun flokkurinn beita sér fyrir því?
Mun flokkurinn beita sér fyrir því að svín í matvælaiðnaði fái tækifæri til að njóta útiveru?
Hér á landi er hökkun lifandi karkyns unga í eggjaiðnaði leyfð. Gæti flokkurinn hugsað sér að beita sér fyrir banni á þessari aðferð?
Eftirlit með velferð dýra
Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir að farið verði að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar um betri vinnubrögð MAST við eftirlit með velferð dýra? “Það er mat Ríkisendurskoðunar að MAST hafi sýnt of mikið langlundargeð í einstaka málum. Slíkt sé ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra. Jákvætt er að stofnunin leggi áherslu á verkferla sína, meðalhóf, andmælafresti og að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna fólks í búrekstri. Stjórnsýsluleg framkvæmd má þó ekki vera á kostnað velferðar dýra. Ríkisendurskoðun telur brýnt að Matvælastofnun skoði hvernig á því stendur að sumt búfé búi við slakar og stundum óviðunandi aðstæður árum saman með vitund stofnunarinnar. MAST þurfi í framhaldinu að gera viðeigandi úrbætur á starfsemi sinni. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að gæta að því að krafa um vandaða málsmeðferð sé ekki skálkaskjól fyrir tafir á úrvinnslu mála. Þótt ekki verði dregið í efa að vanda þurfi málsmeðferð við beitingu íþyngjandi úrræða þarf engu að síður að stíga fast niður fæti þegar um er að ræða ítrekuð frávik, enda eitt af grundvallarhlutverkum stofnunarinnar að gæta að velferð dýra.”
Hver er afstaða flokksins til þess að eftirlit með velferð dýra sé í höndum Matvælastofnunar?
Myndi flokkurinn styðja og/eða beita sér fyrir því að stofnuð væri óháð eftirlitsstofnun sem annaðist dýravelferð og stæði vörð um réttindi dýra?
Að lokum viljum við hvetja flokkana og frambjóðendur að láta sig velferð dýra varða. Við erum stödd á afar varhugaverðum tímum. Það er vísindalega staðfest og samfélagslega viðurkennt að dýr eru skyni gæddar verur sem eiga að njóta réttinda og virðingar. Á sama tíma er það því miður of algengt að dýr séu fjöldaframleidd inn í kerfi sem býður ekki upp á líf sem er þess virði að lifa. Dýrum er neitað um tækifæri til að sýna sitt eðlilega atferli. Sú skelfilega þróun er að eiga sér stað hér líkt og erlendis að búum fækkar og þau stækka. Það hefur óhjákvæmilega slæm áhrif á velferð dýra. Virðingarfyllst,
Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi